Gömul skjölum frá Gautlöndum 1819 − 1936

Skjöl úr möppu sem Gautlandabændur varðveittu og afhentu mér til að skanna í október 2024. Númeraði ég þau og skannaði í þeirri röð sem mér bárust þau í hendurnar. Það eru núm­er­in í horn­klof­un­um.Hér eru þau skráð í tímröð eftir því sem hægt er, og gefin stutt lýsing á þeim. Gengið var frá skjölunum á viðeigandi hátt og verða þau afhent skjalasafni. Ég hef vélritað texta skjalanna eftir getu og eru þeir aðgengilegir hér.
á góu 2025/geirfinnur
Síðar hefur verið bætt við öðrum merk­um skjölum og er upp­runa þeirra get­ið í lýs­ingu.


1819

[003]
„Lögfesta fyrir Sveinsströnd“. Lýsing Jóns Jónssonar 13. maí 1819.
1828

[006]
Lögfesta (landamerkjaskrá) Sigurðar Jónssonar fyrir Gautlönd rituð 28. maí 1828. Illskiljan­leg, en þar má þó lesa að Gautlandalækur ræður merkjum frá Arnarvatnsós suður í Baldurs­heimskrók og áfram suðvestur í Sandvatnskrók, að Blesuholti og „so úr króknum beina stefnu vestur í Bjarna tjörn ... þaðan beina stefnu til norðurs og í Föxu grófarbotn“.
1833

[011]
Áreiðargjörð (kallar JGP það svo á umslagi) á Landamerki Gautlanda og Hörgsdals 1833. Fjallað er um landamerki milli Gautlanda og Hörgsdals og vitnað í vitnisburð fjögurra manna dags. 3. júní 1721 (fylgir ekki með). „frá sidri enda svokallaðrar Föxugrófar ad vestanverdu við sokallaðan Dýnulæk, þángað til kemur sudur á mótsvid midt Jafnafell“.
1850

[007]
Álitsgjörð Jóns Espolin, búfræðings um ræktunarskilyrði á Gautlöndum. Sennilega um miðja 19. öld segir Jón Gauti Pétursson.
1857

[019]
„Sóknarskjal“ Deila Jóns Sigurðssonar á Gautlöndum við alnafna sinn í Lundarbrekku 1858-59. Á 16 þéttskrifuðum síðum rökstyður hann mál sitt um eignarrétt lands vestan Sand­vatns og veiði í vatninu. Krafa hans er að Landamerkin ... verði ákveðinn þannig; frá Hörgs­dals Landamerkjum að norðan ráði Dýnulækur fram að botni sínum, og þaðan bein stefna til Suðausturs í Bjarnatjörn. Skrifað á Arndýsar­stöðum 20. Aug 1857.
1857

[008]
Kort af Dínu og Sandvatni. örugglega það sem Jón Sigurðsson vísar í í fyrrgreindu „Sóknar­skjali“. Virðist vanta á það stykki vinstra megin, þ.e. norðan við.
1858

[020]
Dómssátt milli Jónanna tveggja, gerð á Akureyri 19. júlí 1858, undirskrifuð af Jóni á Gaut­löndum og Ara Sæmunds­syni ásamt lakk-innsiglum þeirra beggja. Upp lesin að Ljósavatni 27. júní 1878 og færð í afsals og veðbréfabók Þingeyjarsýslu No 209B. Þar segir (1) Landa­merki ... úr Bjarnapolli í Dínulæk, skuli þau þó vera svo mikið austar, að þau stefni úr poll­inum rjett í Föxugróf. (2) Lundarbrekka skuli ætíð hjereptir eiga frjálst nótlag eða fyrirdrátt fyrir silung í Sandvatni fyrir svonefndum Nónlágum og þetta á öllum ársins tímum. (3) Stór­ás fái að standa. (4) Jón á Gautlöndum býðst til að taka helft kostnaðarins „þó án þess að álíta það skyldu sína“.
1860

[005]
Útskipting Litlustrandar (hjáleigu) úr Sveinsstrandarlandi 14. júní 1860 ásamt vottum ofl. Gert að kröfu eigandans, Jóns Árnasonar á (sic) Svínadal. Litlustrandarjörð er þá talin þriðjungur af sameiginlegum jörðunum. Norðurlandamerkin voru ákveðin svo: „Gautlanda­götur ráði að vestan frá Sveinstrandarvaði [á Gautlandalæk] til austurs í svokallað Miðleiti þaðan þaðan beina stefnu í Suðvesturhornið á Sveinstrandartjörn. − Að norðaustan skal ráða bein stefna úr norðausturhorni Tjarnarinnar í Kráká“.
1861

[013]
„Áreiðargjörð á landamerkjum Sveinstrandar og Arnarvatns“ kallar J.G.P. álit Þorsteins Jónssonar, Arngríms Gíslasonar og Björns Bjarnasonar á Sveinsstrandar og Arnarvatns dags. 28. júní 1861. „að svo nefnt tíðaskarð álitum við órækt landamerki áður nefndra jarða samkvæmt eldri og ýngri vitnisburð­um; þaðan takist bein stefna vestur í Arnarvatn, sunnanvert við Fagradalshól; en austur frá tíðaskarði beint sunnanvert í Grænstjörn, þarsem störinn nær saman, − þá álítum við að þessi tjörn og kýllin úr henni eigi að ráða austur í kráká.“ Þessu fylgja vitnisburðir tveggja aðila á sér blaði. Ari Helgason á Sveinsströnd segir:“ „úr miðju Skútustaðavaði, beina stefnu í Grænstjörn sunnanvert þar sem stör nær saman, þaðan beina stefnu í Bóndhól ... í Tíðaskarð og enn þaðan beint í Fagradal“. Jón Magnússon í Hörgsdal segir „úr Fagradal í Tíðaskarð og úr Tíðaskarði í Skútustaðavað“.
1869

[001]
Bréf Jóns á Gautlöndum 24. apríl 1869 þar sem hann byggir Jóni Hinrikssyni Litluströnd ásamt vel skil­greindu sellandi vestur við Sandvatn. Athyglisvert að hann segir Bjarnar­staðalandamerki vera „beint úr Trítli í vog þann er skerst austur úr Sandvatni sunnan við Sandvatnssel. Það að hann nefnir „Sandvatns­sel“ bendir til þess að þar hafi áður verið sel.
1878

[021]
Yfirlýsing Jóns Sigurðssonar þar sem hann ítrekar að merkin séu „Úr Bjarnapolli bein stefna til norðurs í Föxugrófarbotna“. Upp lesið á manntalsþingi að Ljósavatni hinn 27. júní 1878, ásamt Sættinni frá 1858, og fyrir það greidd 1 kr. (Gæti verið það sama og Böðvar segir á umslangi „Lögbann Jóns Sig v. notkunar Stórásslands um 1869.“
1884

[004]
Landamerkjaskrá Gautlanda, handskrifuð 6. júní 1884 þinglýst 8. júní 1888. Sameiginlegt fyrir Gaut­lönd, Bjarnarstaði og Stöng. Vesturmörk eru „bein stefna í norðvestur úr Bjarna­polli í Dínuholt er liggja vestarlega í Dínu, utan undir Bárðardalsvegi; frá Dínuholtum ræð­ur Dínulækur útí Föxugróf..“. Ljósrit úr sýslumanns­bók af sama (ætlaða) texta er til, en hann er með nokkrum alvarlegum villum (vestur í stað austur) og mörg­um minni.
1887

[014]
Sölubréf Jóns Jónssonar í Víðikeri þar sem hann selur Jóni Sigurðssyni á Gautlöndum Sveins­strandar­land vestan Krákár („(því, er hann átti eigi áður) og skifting á engi Sveins­strandar austan Krákár“ segir J.G.P) „ásamt þeim húsaræflum“ 12. maí 1887. Greiðsla 600 kr. fer í að borga skuld Sigurgeirs bróður hans til Landsbankans.
1890

[012]
Landamerkjaskrá fyrir jörðina Litluströnd rituð af eiganda hennar Jóni Jónssyni 10. maí 1890. „Vestan Krákár móti Sveinsströnd að norðan ræður merkigarður að Sveinstrandar­tjörn og þaðan bein stefna í merkivörðu á svonefndu Miðleiti, þaðan bein stefna í Svein­strandarvað við Gautlandalæk“.
1891

[010]
Afrit af kaupbréfi frá 1447. JGP segir á umslangi „Kaupbréf fyrir Hrakströnd (Sveinsströnd) frá 1447 (Nb. Áður keypt undir Sveinsströnd 3ja kúa fóður úr Grænavatnslandi)“. Upp skrifað 10. september 1891 og signet Jóns Þorkelssonar undir.
1905

[015]
Pétur Jónsson lýsir yfir að hann selur Sigurgeiri Jónssyni ábýlisjörð hans Bjarnarstaði, enn­fremur engi það er jörðinni Sveinströnd tilheyrir austan Krákár og Norðan Strandakýls. Nánari kaupsamningur verði gerður við afhendingu. Engin lýsing á landamerkjum.
1910

[016]
Pétur Jónsson bóndi á Gautlöndum gerir kunnugt: .. að hafa Selt Sigurgeiri Jónssyni á Bjarnastöðum öll hús á Sveinsströnd ásamt afnotarétti af lóð undir þau meðan hann og hans niðjar nýta húsin. „Undanskilinn er mykjuhaugur er stendur norðan við bæinn“.
1915

[018]
Lansdféhirðir lýsir yfir lausn veðbanda af Bjarnastöðum, sem „Jón sál. Sigurðsson“ hafi lagt á jörðina. Stílað á Prófessor Jón Kristjánsson. Texti ekki upp ritaður.
1919
eða fyrr.

[ST001]
Teiknað kort af Stangar­landi. Feng­ið hjá Sig­urði Trausta á Stöng 2025. Selma Ás­munds­dótt­ir tel­ur senni­legt að lang­afi henn­ar Ás­mund­ur Krist­jáns­son (1865−1927) hafi gert kortið. Má þá gera ráð fyrir að það sé í tengsl­um við kaup jarð­ar­inn­ar 1919. Kortið gæti þó verið eldra þar sem Krist­ján, fað­­ir Ás­mund­ar bjó á Stöng frá því fyrir alda­mótin.
1919

[002]
Kaupsamningur Pjeturs Jónssonar á Gautlöndum og Ásmundar á Stöng 19. maí 1919. Vesturmörk eru skv. Landamerkjaskrá 1884/8 „Dýnulækur í Föxugrófarbotn, þá Föxugróf ofan fyrir Skolapoll“.
1922

[009]
Landamerkjaskrá fyrir Gautlönd, undirrituð fyrir hönd eigenda af Jóni Gauta Péturssyni 25. júní 1922. árituð með samþykki nágranna.
1936

[017]
Kaupsamningur. Þórólfur í Baldursheimi með umboð frá Þuríði Sigurgeirsdóttur í Baldurs­heimi selur Jóni Gauta Péturssyni á Gautlöndum hús og önnur mannvirki .. innan túngirð­ingar á býlinu Sveins­strönd, og að girðingu meðtalinni.
1993

[GJ001]
Minnis­punkt­ar úr göngu Sigurð­ar Trausta á Stöng, Böðvars og Sigurð­ar Guðna á Gaut­lönd­um og Geir­finns um landa­merki Gaut­landa og Stang­ar norð­an Sand­fells þann 2. ágúst 1993. Voru þetta fyrstu GPS mæl­ing­ar þarna. Stað­a­lýs­ing­ar hafð­ar eftir Böðv­ari og Sigurði Trausta.